Almennt

SkyTrak var fyrst kynntur til sögunnar í nóvember 2014 og fékk strax mjög jákvæð viðbrögð. Síðan þá hefur SkyTrak teymið unnið að margskonar endurbótum sem hafa skilað sér til notenda. SkyTrak er í dag einn mest seldi golfhermir í heiminum og hefur fengið fjölmargar viðurkenningar frá virtum golftímaritum. Hann er iðulega í efstu sætum þegar bestu golfhermar heimsins eru bornir saman. Verðið á SkyTrak er þó mun lægra en á öðrum hermum sem einnig skipa sér iðulega í efstu sætin, s.br. Trackman 4 og GC-Quad.

Tæknin

Flestir golfhermar byggja á annaðhvort „Doppler“ (radar) tækni eða „Photometric“ (háhraðamyndavél) tækni. Dæmi um herma sem nota „Doppler“ eru t.d. Trackman og Flightscope. Dæmi um herma sem nota „Photometric“ tækni eru t.d. GC-2 og GC-Quad. SkyTrak tilheyrir seinni hópnum þar sem hann notar „Photometric“ tækni en hún er yfirleitt talin nákvæmari, sérstaklega þegar um innanhúss golfherma er að ræða. Ástæðan fyrir því er sú að „Photometric“ hermar ná myndum á fyrstu sekúndubrotum boltaflugsins. Út frá samanburði á þessum myndum getur hermirinn reiknað á nákvæman hátt, lárétta og lóðrétta stefnu boltans (launch angle), bak- og hliðarspuna boltans (spin axis) og bolta hraða. Út frá þessum forsendum getur hermirinn reiknað nákvæmlega hvernig boltaflugið kemur til með að líta út, hversu langt höggið verður og hvernig boltinn hagar sér þegar hann lendir. Eins og gefur að skilja þurfa „Photometric“ hermar ekki nema nokkra sentimetra af boltaflugi til að reikna útkomu höggsins á mjög nákvæman hátt á meðan það er almennt talið að „Doppler“ hermar þurfi nokkra metra af boltaflugi til að geta reiknað þessar sömu breytur af einhverri nákvæmni. Það er ástæðan fyrir því að hermar í sama flokki og SkyTrak eru yfirleitt taldir nákvæmari innanhúss þar sem boltaflug er takmarkað.